31.3.2007 | 23:59
Gömul íslensk hjúskaparhjátrú
Karlmaðurinn skar sig stundum til blóðs og laumaði blóðinu ofan í stúlkuna án vitundar hennar ef hann vildi ná ástum hennar. Þetta varð hann að gera án þess að hún vissi af og var þetta sagt duga vel.
Karlmaður gat líka tekið svartan agatstein og skrifa nafn sitt á hann og skafa nafnið ofan í messuvín og gefa draumadísinni það og mundi hann þá ná ástum hennar.
Konan hafði sjálf það ráð að koma einhvern veginn tíðablóði sínu ofan í manninn og munu ýmsar leiðir hafa verið notaðar til þess og mun þetta hafa verið blandað saman við bakkelsi t.d. hnoðað inní brauðdeig.
Ef kona er fljót að þurrka vot föt mannsins þýðir það að henni lítist vel á hann.
Ekki má bera út rúmföt hjóna á sunnudagsmorgni til að viðra þau því að þá verður hjónaskilnaður.
Ef bóndinn ferðast eitthvað út af heimilinu má konan ekki búa um rúmið þeirra sjálf fyrsta kvöldið sem hann er að heiman, því að þá koma þau aldrei framar í eina sæng.
Til að kona elski mann sinn skal hann gefa henni rjúpuhjarta að éta saxað í mat eða hafa tvær tungur undir tungu sér og kyssa hana.
Ef maður er hræddur um að konan hafi haldið framhjá sér skal hann leggja segulstein eða segulstál undir höfuð hennar sofandi; ef hún er honum trú, snýr hún sér að honum og faðmar hann, en annars snýr hún sér frá honum og veltir sér ofan á gólf, ef mikil brögð eru af.
Ef kona er ófrjósöm, skal hún drekka merarmjólk eða taka eista úr hafri eða ref, þurrka það í skugga, mylja það í duft og taka inn duftið í víni; þetta skal hún hvort tveggja gera rétt á eftir tíðum; gott er og, að konan hafi hærra undir lendum en herðum við mök.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.